Dönskum blaðamanni ógnað í Texas

George W. Bush og Anders Fogh Rasmussen eftir blaðamannafund í …
George W. Bush og Anders Fogh Rasmussen eftir blaðamannafund í Texas í dag. Reuters

Dönskum blaðamanni sem fylgist með heimsókn danska forsætisráðherrans Anders Fogh Rasmussen á búgarð Bandaríkjaforseta í Texasríki var ógnað með skammbyssu skammt frá búgarðinum.

Á fréttavef Berlingske Tidende  kemur fram að blaðamaðurinn Terkel Svensson sem starfar fyrir Ritzau fréttastofuna fór inn á einkalóð skammt frá búgarði Bandaríkjaforseta í leit að næði til að hringja heim frétt af heimsókninni.

Hann var í símanum er gráhærð kona með sexhleypu kom út úr húsi sínu og skipaði honum að hypja sig af lóðinni.

Terkel sagðist ekki hafa áttað sig á að konan var vopnuð og hélt áfram að tala í símann á meðan hann gekk í rólegheitum út úr innkeyrslunni en þegar konan æpti á hann tók hann til fótanna.

Eftirá sagði Terkel í samtali við Berlingske Tidende að hann væri eiginlega í losti og að þetta væri nokkuð sem væri óhugsandi að gerðist í í Danmörku.

Samkvæmt lögum mega húseigendur í Texas skjóta hvern þann sem fer inn á einkalóð í leyfisleysi.
Þeir bandarísku blaðamenn sem urðu vitni að atburðinum voru einnig í nokkru uppnámi og tóku nokkrir þeirra Svensson í viðtal, þar á meðal CNN sjónvarpsstöðin.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert