Fjárfesta fyrir þúsundir milljarða


Mikilvægi Afríku fyrir kínverska efnahagsundrið er reglulega gert að umtalsefni og skammt er síðan talsmenn Rio Tinto, annars stærsta námafyrirtækis heims, spáðu því að hrávöruþörf Kínverja myndi verða meiri en helmingur heimsneyslunnar innan áratugar.

Umsvif Kínverja í Afríku aukast stöðugt og áætlaði tímaritið Beijing Review fyrir rösku ári að yfir 800 kínversk fyrirtæki væru með starfsemi í Afríku, þangað sem frumkvöðlar streyma frá Drekahagkerfinu í leit að gulli og grænum skógum.

Þessi tengsl eiga aðeins eftir að styrkjast.

Hin hraða uppbygging kínversks iðnaðar kallar á gríðarlegt magn málma, og sú staðreynd skýrir að hluta mikinn áhuga kínverskra fjárfesta á málmvinnslu í Afríku, hvort sem um ræðir járn og platínu í Suður-Afríku, kopar í Sambíu og lýðveldinu Kongó, eða álframleiðslu í Egyptalandi, svo dæmi séu tekin.

Vöxturinn í umsvifum Kína í Afríku síðustu ár bregður birtu á þetta mikilvægi: Árið 2010 ráðgera Kínverjar að verðmæti verslunar við Afríku muni nema um hundrað milljörðum Bandaríkjadala, um 6.600 milljörðum króna.

Tölur um verðmæti innflutningsins frá Afríku til Kína segja ekki alla söguna því á bak við þær liggur gífurleg fjárfesting.

Langt mál væri að tíunda umsvif kínverskra fyrirtækja í Afríku, svo umfangsmikil eru þau orðin. Ágætt dæmi er að kínversk fyrirtæki eiga í samvinnu við Nígeríumenn á ýmsum sviðum og segir í sömu grein í Beijing Review að samvinnan nái til landbúnaðar, uppbyggingar innviða, orku- og símakerfis.

Þá hafi kínverskt stórfyrirtæki fyrir nokkru gert samning fyrir sem svarar 130 milljörðum íslenskra króna við Nígeríustjórn um uppbyggingu lestakerfis í þessu ellefta mesta olíuvinnsluríki heims.

Áhrif Kínverja í Afríku eru því óumdeilanleg og ber að hafa í huga að mörg kínversku fyrirtækjanna sem þar hafa starfsemi eru í ríkiseigu. Þessi styrku tengsl komu berlega í ljós í október 2006, þegar hátt í 50 afrískir þjóðarleiðtogar komu í opinbera heimsókn til Peking. Var aðdragandinn sá að árið 2000 efndu kínversk stjórnvöld til fyrstu ráðstefnunnar í þessari röð með ríkjum Afríku.

Sú næsta fór fram 2003 og óskaði Hu Jintao Kínaforseti við það tilefni eftir meiri aðstoð við afrísk ríki. Eftir það stórjókst aðstoð Kínverja við Gana, svo dæmi sé tekið.

Lána fé og byggja upp innviðina

Kínverjar hafa þegar varið hundruðum, ef ekki þúsundum milljarða króna í uppbyggingu innviða Afríku og boða að þeir muni veita tíu milljörðum dala, um 670 milljörðum króna, í formi lána og annarrar aðstoðar til þróunarlandanna, margra þeirra í Afríku, á næstu árum. Síðan er vilji til að hækka framlögin.

Kínverjar flytja inn mikið af olíu frá Súdan. Þeir hafa fjárfest fyrir háar fjárhæðir í olíuinnviðum landsins og má nefna að um það leyti sem Hu forseti fór í opinbera heimsókn til nokkurra Afríkuríkja fyrir tæpu ári fóru 80 prósent olíuútflutningsins frá Súdan beint til Kína. Kínverski ríkisolíurisinn CNPC hefur leitt þessar fjárfestingar og er það hald manna að þær nemi að minnsta kosti á annað þúsund milljörðum íslenskra króna.

Eins og fram kemur í viðtalinu hér að ofan hefur stefna Kínverja í viðskiptum þeirra við Súdanstjórn verið umdeild og fyrir nokkru sagði bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Steven Spielberg starfi sínu lausu sem listrænn ráðgjafi Ólympíuleikanna í Peking, sökum þess að Kínastjórn hefði mistekist að beita áhrifum sínum til að koma á friði í Darfur-héraði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert