Afríka nauðsynleg fyrir frekari vöxt í Kína og í heiminum öllum

Zhang Keyuan, sendiherra Kína á Íslandi, gegndi áður sama embætti í Afríkuríkinu Ghana. Baldur Arnarson hitti Zhang að máli í Vesturbænum og ræddi við hann um þróunaraðstoð Kínverja til Afríku, þar sem þeir leggja til fjármagn og byggja upp innviði.
Kínverskur málsháttur segir að maður skuli ekki skipta sér af uppeldi barna nágrannans,“ segir Zhang Keyuan, sendiherra Kína á Íslandi, um stefnu landsins í Afríku. Samskiptin byggist á jafningjagrundvelli, þar sem slæm reynsla Kínverja af erlendum yfirráðum sé höfð í huga.

Umsvif þessa fjölmennasta ríkis heims í Afríku hafa vaxið hröðum skrefum undanfarin ár og gagnrýni á tengsl Kínverja við stjórnvöld í Súdan dregið athyglina að stefnu Kínastjórnar í hinni víðáttumiklu álfu.

Zhang var sendiherra í Gana áður en hann tók við sendiherrastöðunni hér og segir spurður um reynslu sína mikilvægt að hafa í huga að róstusamt hafi verið í heimshlutanum Vestur-Afríku síðustu áratugi.

Borgarastyrjaldir hafi geisað í mörgum ríkja svæðisins, svo sem í Síerra Leóne, þar sem skammt sé síðan komið var á friði. Ástandið sé miklu mun betra í Gana.

„Ég held að Gana sé einstakt dæmi í Vestur-Afríku. Þar hefur herinn ekki rænt völdunum síðan 1981. Landið snerist til lýðræðislegra stjórnarhátta árið 1992 og síðan hafa farið fram nokkrar kosningar, allar með friðsömum hætti. Landið er í dag öruggt lýðræðisríki og hagvöxtur góður undanfarin ár.“

Zhang segir Gana ekki ríkt af náttúruauðlindum. Þar sé að finna gull, sem eigi þátt í litlum hluta þjóðarframleiðslunnar. Erlend fyrirtæki stjórni nú efnahagslífinu.

Vatnsaflið sé eina orkuuppsprettan innan landsins. Á sjötta áratugnum hafi 600 MW vatnsaflvirkjun verið reist í landinu, sem hafi verið meira en nóg til að anna orkuframboðinu í fyrstu. Nú sinni orkuverið aðeins hluta orkuþarfarinnar.

„Við höfum ákveðið að byggja vatnsaflsvirkjun í Gana, um 400 MW raforkuver [uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar er 690 MW] sem kostar 600 milljónir Bandaríkjadala og er hluti af tíu milljarða dala aðstoð Kínverja til þróunarríkja næstu árin.“

Stærstur hluti þessa framlags rennur til Afríku og spurður frekar út í framlag Kínverja í Gana segir Zhang stjórn sína hafa reist sjúkrahús og skóla og önnur mannvirki samkvæmt þeirri „stefnu að Kína, stórt ríki, og hið smáa Gana, séu jafningjar í efnahagsþróuninni“. Með þessari stefnu megi hámarka ávinninginn af tvíhliða viðskiptum ríkjanna.

Zhang bætir því svo við að röð vatnsaflsvirkjana sem til standi að reisa í Suðvestur-Kína verði samtals þrefalt öflugri en þriggja-gljúfra stíflan við Gorges-ána, stærstu vatnsaflsvirkjanir heims, samtals 22.500 MW, ásamt því sem viðbúið sé að vindorkan muni vaxa hratt í Kína.

Zhou Enlai mótaði stefnuna

Afríka er auðug af hvers kyns auðlindum, staðreynd sem höfð var í huga þegar Evrópuríkin skiptu álfunni á milli sín án tillits til íbúasamsetningar á frægri ráðstefnu í Berlín á árunum 1884-85, þegar utanríkisráðherrar helstu Evrópuríkja og Bandaríkjanna réðu ráðum sínum um framtíð „myrku álfunnar“, sem þeir nefndu svo. Enginn Afríkumaður var viðstaddur fundahöldin.

Forsætisráðherrann Zhou Enlai (1949-76) benti eitt sinn á að Afríka væri afar auðug af náttúruauðlindum.

Inntur eftir áhuga Kínverja á hráefnum frá Kína segir Zhang landsmenn sína að sjálfsögðu kaupa hráefni frá álfunni. Hann bendir á að Bandaríkin séu stærsti kaupandi olíu frá Afríku og að flest ríkjanna sem ráði yfir mestum auðlindum í Afríku hafi þegar verið „skipt upp“ á milli nýlenduveldanna.

Kína sé einn stærsti innflytjandi af olíu í heiminum, en noti hins vegar ekki mikið af henni. Þvert á móti sé mikið magn olíu flutt út í formi vara.

Zhang vill jafnframt ítreka að í samanburði við þjóðarframleiðslu Kína sé þróunaraðstoðin til Afríku óveruleg og enn lítil miðað við Danmörku og Svíþjóð, þar sem stuðningurinn fari fram úr 0,7 prósentum af vergri þjóðarframleiðslu.

Kínverjar geri sér grein fyrir að án þróunar í þróunarlöndum Afríku og Asíu geti þeir ekki þróast sjálfir. Hér sé á ferðinni gagnkvæm aðstoð.

Á sjötta áratugnum hafi Zhou Enlai, þáverandi forsætisráðherra, heimsótt Afríku, og í framhaldinu mótað stefnu Kínastjórnar í álfunni. Hluti þeirrar stefnu sé að blanda sér ekki í innanlandsmál ríkjanna, enda hafi Kínverjar reynslu af því að vera undir erlendu oki og viti því vel hversu erfitt og slæmt það er.

„Kína styður lýðræði, mannréttindi og er á móti hryðjuverkum, en þegar við sendum okkar tvíhliða aðstoð reynum við ekki að segja vinum okkar fyrir verkum,“ segir Zhang.

Áratuga samvinna við Súdana

Átökin í Darfur-héraði í Súdan hafa sem fyrr segir dregið athyglina að umsvifum Kínverja í Afríku.

Spurður um þá gagnrýni að Kínverjar hafi litið framhjá mannréttindabrotum á svæðinu vegna olíuhagsmuna segir Zhang efnahagssamvinnu ríkjanna hafa hafist löngu fyrir átökin, eða á 7. áratugnum.

Kínastjórn hafi reynt að aðstoða Súdanstjórn þegar átökin blossuðu upp [árið 2003] og að það hafi verið fyrir atbeina Hu Jintao forseta sem að samkomulag hafi náðst um að senda friðargæslusveitir SÞ þangað.

Hu hafi skipað sérstakan erindreka, sem Zhang segir reyndan diplómata og gamlan vin sinn, til að þrýsta á um friðarumleitanir.

Spurður um efnahagslegt mikilvægi Afríku fyrir Kínastjórn segir Zhang að efnahagslega muni Afríka verða mjög mikilvæg álfa, ekki aðeins fyrir Kína, heldur ESB og önnur ríki heims. Álfan sé á leið með að verða jafn mikilvæg og hvaða ríki sem er. Þetta hafi verið undirstrikað á ráðstefnu ESB með leiðtogum Afríkuríkja í Lissabon í desember.

Samfara efnahagsuppbyggingunni og áherslu á frumkvöðlastarfsemi síðustu ár hafa rök verið færð fyrir því að völdin hafi færst frá stjórninni í Peking og til yfirvalda í héruðunum.

Spurður um stöðu lýðræðisins í Kína segir Zhang þjóð sína enn vera að læra. Fyrir nokkrum vikum hafi verið haldin flokksráðstefna kommúnistaflokksins, hins ráðandi flokks,

„Ástæðan fyrir því að að ég minnist þessa er sú kommúnistaflokkurinn er við völd og ljóst að áherslur flokksins munu hafa mikil áhrif á daglegt líf í Kína. Lýðræðið hefur þróast samhliða hagvexti, eins og tvær samhliða lestir. Við höfum þróað lýðræðið skref fyrir skref. Vesturlandabúar sjá ekki þessa þróun, þeir sjá efnahagshliðina, ekki þessa hlið. Þetta er vanmat á lýðræðisþróuninni. Þeir sjá ekki það jákvæða. Fyrir næstum tíu árum lagði Kínastjórn upp með kerfi sem fól í sér að einstaklingar fengu atkvæðisrétt í kosningum á þorpsstigi.

Nokkur óháð samtök frá Bandaríkjunum tóku þátt í þessari umbreytingu og þegar við tókum smátt og smátt eftir því að hún reyndist vel tókum við upp slíkar kosningar hjá grasrótinni, í sýslum og þorpum, svæðum sem ná til 800-900 milljóna manna. Þetta er mjög mikilvæg þróun sem fáir hafa veitt athygli.“

Ríkið heldur úti matarbanka

Spurður að lokum um þær kenningar að Kínverjar verði fyrr en síðar að flytja inn mikið magn af matvælum til að anna vaxandi eftirspurn segir Zhang það alltaf munu verða áskorun að tryggja nóg framboð af mat. Gengið hafi verið á vatnsforðabúr í Norður-Kína og að stjórnvöld ráði yfir matarbanka með hrísgrjónum og svínakjöti, sem hægt sé að grípa til.

Ekki megi gleyma því að Kínverjar séu 22% jarðarbúa, en hafi aðeins um 7% af landmassanum. Þrátt fyrir það ættu Kínverjar að geta verið sjálfum sér nægir um mat. Töluvert magn sé flutt inn, m.a. sítrónur frá Kaliforníu og epli frá Washington-ríki, enda verði viðskiptahallans vegna að flytja inn vörur til Kína frá þessum stærsta markaði heims.

Í hnotskurn
» Sem dæmi um framlag Kína til Afríku nefndir Zhang lyf sem unnið er úr jurtum og gagnast gegn malaríu.
» Hann segir að á síðustu 50-100 árum hafi lyf sem byggist á kínidín [unnið úr berki Kínatrés] verið notuð gegn malaríu.
» Malarían hafi hins vegar byggt upp viðnám gegn því.
» Zhang segir einkageirann í Kína þróast hratt og að fram sé komin nokkuð stór millistétt.
» Talið sé að hún telji frá nokkrum milljónum í nokkra tugi milljóna manna, alls ekki 200 milljónir manna, enda væri Kína þá stærsta hagkerfi í heimi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert