Taylor fyrirskipaði mannát

Charles Taylor
Charles Taylor Reuters

Fyrrverandi forseti Líberíu, Charles Taylor, skipaði hermönnum sínum að borða mannakjöt óvina sinna. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. Fyrrverandi liðsmaður dauðasveita í Líberíu og Sierra Leone sagði frá þessu í réttarhöldum yfir Taylor við stríðsglæpadómstólinn í Haag í Hollandi.

Joseph Zigzag Marzah sagði frá því að Taylor hefði jafnvel skipað hermönnum sínum að leggja sér til munns friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna ,,til þess að halda fólkinu hræddu".

Charles Taylor er ákærður fyrir að hafa aðstoðað uppreisnarmenn í Sierra Leone í stríði sem stóð yfir í 11 ár þar sem þúsundir létu lífið. Hann hefur neitað öllum ákærum. Réttarhöldin voru færð frá Vestur-Afríku vegna ótta við að þau gætu leitt til óeirða. Margir hafa borið vitni bak við luktar dyr.

Joseph Zigzag Marzah greindi frá því að þeir sem óhlýðnuðust Charles Taylor voru teknir af lífi. Fórnarlömb mannátsins voru oftast meðlimir Krahn ættflokks fyrrverandi forseta Líberíu, Samuel Doe, sem var við ríki árið 1989. Að auki voru fórnarlömbin friðargæsluliðar frá Vestur-Afríku ásamt friðargæsluliðum Sameinuðu þjóðanna.

,,Við skárum þá á háls, skárum niður í bita... tókum hausinn af og hentum honum, tókum kjötið og settum það í pott og bættum við salti og pipar, eins og Charles Taylor veit" sagði Marzah.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert