Kínverska sjónvarpið rauf útsendingu frá Ólympíu

Kínverska ríkissjónvarpið rauf útsendingu þegar þrír menn trufluðu athöfn í Ólympíu í Grikklandi í morgun þar sem verið var að kveikja ólympíueldinn. Mennirnir hlupu inn á svæðið þegar Liu Qi, formaður framkvæmdanefndar ólympíuleikanna í Peking, var að halda ræðu og héldu á borða þar sem ólympíuhringjunum fimm hafði verið breytt í handjárn.

Nokkrar kínverskar sjónvarpsstöðvar sýndu frá athöfninni, ekki þó beint heldur með nokkurra sekúndna töf. Kínverska sjónvarpið CCTV hætti útsendingu frá Ólympíu og sýndi þess í stað myndir af íþróttaleikvanginum í Peking eftir að mótmælendurnir reyndu að grípa hljóðnemann af  Liu. Að sögn AP fréttastofunnar voru mennirnir þrír á vegum samtakanna Blaðamenn án landamæra.

 Lögregla handtók einnig Tíbeta og grískan ljósmyndara skammt frá svæðinu þar sem tíbetskir mótmælendur höfðu safnast saman. 

Eftir að kveikt hafði verið á ólympíukyndlinum með spegli og sólarljósinu í samræmi við fornar hefðir hljóp gríski taikwondomaðurinn Alexandros Nikolaidis fyrsta sprettinn með eldinn. Nokkrir kínverskir íþróttamenn munu hlaupa með eldinn út úr Ólympíu. Alls munu 645 manns hlaupa með eldinn um Grikkland, alls 1528 km vegalengd, til ólympíuleikvangsins við Akrópólishæð þar sem endurreistir ólympíuleikar voru fyrst haldnir árið 1896. Þar fá kínverskir embættismenn eldinn í hendur. 

Eldurinn verður síðan fluttur 137 þúsund kílómetra vegalengd til Peking og mun hlaupið taka 130 daga. Búist er við, að hópar sem berjast fyrir auknum mannréttindum í Kína muni reyna að trufla hlaupið. 

Lögregla handtekur mann meðan Liu Qi flytur ræðu í Ólympíu.
Lögregla handtekur mann meðan Liu Qi flytur ræðu í Ólympíu. Reuters
Fylgt er ævagömlum hefðum þegar ólympíueldurinn er tendraður í Ólympíu.
Fylgt er ævagömlum hefðum þegar ólympíueldurinn er tendraður í Ólympíu. AP
Robert Menard, framkvæmdastjóri samtakanna Blaðamenn án landamæra, með borða þar …
Robert Menard, framkvæmdastjóri samtakanna Blaðamenn án landamæra, með borða þar sem ólympíuhringjunum hefur verið breytt í handjárn. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert