Leiðtogar Zimbabve sagðir búa sig undir ósigur

Stuðningsmaður ZANU-PF fagnar kjöri frambjóðanda síns í Harare í gær.
Stuðningsmaður ZANU-PF fagnar kjöri frambjóðanda síns í Harare í gær. AP

Leiðtogar stjórnarflokksins ZANU-PF í Zimbabve eru nú sagðir vera að búa sig undir þann möguleika að flokkurinn missi völdin í landinu í kjölfar kosninganna á laugardag. Flokkurinn hefur farið með völd í landinu frá því það fékk sjálfstæði frá Bretum árið 1980 og segja fréttaskýrendur að stuðningsmenn flokksins eigi erfitt með að átta sig á því að raunverulegur möguleiki sé á því að hann missi völd.  

Stjórnarandstaðan hefur nauman meirihluta á þingi er tveir þriðju hlutar atkvæða hafa verið taldir en ekki hefur enn verið greint frá úrslitum forsetakosninga sem fram fóru samhliða þingkosningunum álaugardag.  

Þó er haft eftir kosningaeftirlitsmönnum að Morgan Tsvangirai, frambjóðandi stjórnarandstöðunnar hafi hlotið fleiri atkvæði en Robert Mugabe, sitjandi forseti. Þeir segja hins vegar ekki útlit fyrir að Tsvangirai nái hreinum meirihluta í fyrstu umferð kosninganna og að því muni önnur umferð þurfa að fara fram.  

„Ég hef verið að tala við áhrifamenn innan stjórnarflokksins og þeir hafa áhyggjur af því að raunverulegar líkur séu nú á stjórnarskiptum í landinu," segir Marwick Khumalo, talsmaður afrísku eftirlitssamtakanna PAP. „ZANU-PF hefur verið svo mótandi afl í lífi íbúa Zimbabve að það er erfitt fyrir alla þá sem tengjast stjórnarflokknum að horfast í augu við það að þeir geti beðið ósigur eða hafi jafnvel þegar gert það."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert