Starfsmenn Nike í Víetnam krefjast hærri launa

Nike skór
Nike skór Reuters

Yfir 20 þúsund starfsmenn verksmiðju sem framleiðir skó fyrir bandaríska íþróttavöruframleiðandann Nike í Víetnam fóru í verkfall í dag til þess krefjast hærri launa og betri aðbúnaðar á vinnustað.

Taívanskt fyrirtæki á verksmiðjuna og er undirverktaki Nike í Long An héraði í Víetnam. Krefjast starfsmennirnir þess að fá 20% launahækkun sem þýðir að meðallaun verði 59 Bandaríkjadalir, 4.500 krónur, á mánuði. Jafnframt krefjast þeir þess að boðið verði upp á betri mat í kaffistofu fyrirtækisins.

Nike íþróttaskór hafa verið framleiddir í verksmiðjunni frá árinu 2002 og eru starfsmenn um 21 þúsund talsins, flestir þeirra ungar konur. Verksmiðjan greiðir þeim um 14% hærra kaup heldur en lágmarkslaun í landinu en að sögn forsvarsmanna starfsmanna er verðbólga það há í landinu að þeir hafa orðið fyrir kjaraskerðingu að undanförnu. Verðbólga hefur aukist um 19% á síðustu tólf mánuðum í Víetnam og í janúar skikkuðu stjórnvöld í landinu erlend fyrirtæki til þess að hækka laun starfsmanna um 13%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert