Frakkar setja skilyrði vegna Ólympíuleikanna

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands.
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands. Reuters

Mannréttindaráðherra Frakklands, Rama Yade, segir að Kínverjar verði að uppfylla þrjú skilyrði til að Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti mæti á setningarathöfn Ólympíuleikanna í Peking.

Kínversk stjórnvöld yrðu að leita eftir viðræðum við Dalai Lama og láta lausa pólitíska fanga, og aðgerðum gegn Tíbetum yrði að linna og rannsókn að fara fram á átökum sem brotist hefðu út undanfarið.

Yade segir í viðtali við Le Monde í dag að Sarkozy muni er þar að kemur ákveða í samráði við önnur ESB-ríki hvort hann mæti til setningarathafnar leikanna, en Frakkar verða þá í forsæti ESB.

Þrennt yrðu Kínverjar þó skilyrðislaust að gera ef þeir vilji að Sarkozy mæti til setningarathafnarinnar:

„Láta af ofbeldisaðgerðum gegn íbúunum [í Tibet] og láta pólitíska fanga lausa; rannsaka atburðina í Tíbet undanfarið og hefja viðræður við Dalai Lama.“

Sarkozy sagði í síðasta mánuði að hann væri andvígur því að Frakkar sniðgengju leikana alveg, en sagði að til greina kæmi að hann mætti ekki á setningarathöfnina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert