200 konur og börn flutt á brott

Konur fluttar af búgarðinum í gær.
Konur fluttar af búgarðinum í gær. AP

Yfirvöld í Texas hafa síðan á fimmtudaginn farið ítrekað inn á búgarð sértrúarsafnaðar í Texas og flutt þaðan á brott hátt í 200 konur og börn vegna gruns um misþyrmingar og kynferðislega misnotkun.

Lögreglumenn létu fyrst til skarar skríða á búgarðinum eftir að fregnir bárust af því að 16 ára stúlku hefði verið misþyrmt þar og hún misnotuð kynferðislega.

Lögreglan leitar m.a. vísbendinga um að stúlkan hafi verið neydd til að giftast fimmtugum manni. Talið er að hún hafi eignast barn þegar hún var 15 ára.

Leiðtogi safnaðarins er Warren Jeffs, en hann situr í fangelsi sem hann var dæmdur eftir að hann var fundinn sekur í nauðgunarmáli.

Barnaverndaryfirvöld í Texas hafa flutt á brott 137 börn og 46 konur af búgarðinum, en lögreglumenn eru þar enn að leita að fleiri börnum.

Jeffs bíður nú réttarhalda í Arizona, þar sem hann er ákærður fyrir aðild að fjórum sifjaspellsmálum og kynferðislegri misnotkun á barni í tengslum við skipulögð hjónabönd. 

Talið var að um 150 manns byggju á búgarði safnaðarins í Eldorado-sýslu í Texas. Alls eru um 10.000 manns í söfnuðinum, búsettir í Arizona og Utah, auk Texas.

Söfnuðurinn, sem kallast Bókstafstrúarkirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu, klofnaði frá Mormónakirkjunni fyrir rúmri öld. Meginkenningarnar sem söfnuðurinn fylgir hljóða upp á að karlar verði að taka sér að minnsta kosti þrjár konur til að komast til himna, og að konur eigi að vera eiginmönnum sínum undirgefnar.

Kirkja safnaðarins í byggingu á búgarðinum 2005.
Kirkja safnaðarins í byggingu á búgarðinum 2005. AP
Lögreglumenn við búgarðinn.
Lögreglumenn við búgarðinn. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert