Lögregla sýknuð í New York

Mótmælendur fyrir utan dómshúsið í New York sökuðu lögreglu um …
Mótmælendur fyrir utan dómshúsið í New York sökuðu lögreglu um kynþáttahatur. Reuters

Dómari í New York hefur sýknað þrjá lögreglumenn sem skutu til bana 23 ára mann sem var úti að skemmta sér með vinum sínum kvöldið áður en hann átti að giftast heitmey sinni í nóvember 2006.

Sean Bell sem var svartur maður var skotinn margsinnis er hann yfirgaf súlustað í Queens hverfi í New York. Tveir rannsóknarlögreglumenn, Micael Oliver og Gescard Isnora voru kærðir um manndráp og sá þriðji var sakaður um að skapa óþarfa hættu.

Þetta mál hafði vakið upp mótmæli um kynþáttahatur innan lögreglunnar og óþarfa hrottaskap við störf. Samkvæmt fréttavef BBC var púað í réttarsalnum er dómarinn kvað upp sýknudóminn.

Lögreglumennirnir voru að sinna skyldustörfum sínum þó þeir væru ekki í lögreglubúningum og voru að rannsaka ásakanir um að vændi væri stundað á súludansstaðnum.

Bell lést samstundis en félagar hans særðust. Lögreglumennirnir sögðust hafa ákveðið að elta þá félaga þar sem þeir höfðu rökstuddan grun um að þeir ætluðu að fremja vopnaða árás úr bíl sínum.

Engin vopn fundust í bílnum en lögreglumennirnir skutu um 50 skotum að honum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert