Sá annan mann fara niður í jarðhýsið

Rannsóknarlögreglumenn við hús Fritzl-fjölskyldunnar í Amstetten í Austurríki.
Rannsóknarlögreglumenn við hús Fritzl-fjölskyldunnar í Amstetten í Austurríki. AP

Leigjandi, hins austurríska Josef Fritzl, hefur greint frá því að hann hafi séð annan mann en Fritzl fara niður í kjallarann þar sem Fritzl hélt dóttur sinni fanginni í 24 ár. Þá segir mágkona Fritzl að hann hafi oft dvalið næturlangt í kjallaranum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Alfred Dubanovsky, sem leigði íbúð í húsi Fritzl í tólf ár, segir í viðtali við BBC að maðurinn sem hann sá fara ofan í kjallarann hafi sagst vera pípulagningamaður. Þá segist hann stundum hafa heyrt torkennileg hljóð úr kjallaranum en að Fritzl hafi sagt þau koma frá kyndingunni. Hann segir Fritzl hafa hótað sér og öðrum leigjendum brottvísun færu þeir niður í kjallarann. 

Christine R, mágkona Fritzl, segir hann hafa farið niður í kjallarann klukkan níu á hverjum morgni undir því yfirskini að hann væri að hanna vélbúnað sem hann seldi síðan fyrirtækjum. „Oft dvaldi hann þar allan nóttina,” segir hún. „Rosi mátti ekki einu sinni færa honum kaffi.” Þá segir hún að hann hafi alltaf komið illa fram við eiginkonu sína.

Lögregla hefur greint frá því að Fritzl hafi hótað dóttur sinni og þremur af sex börnum sem hún fæddi honum að kjallarinn myndi fyllast af banvænu gasi kæmi eitthvað fyrir hann. Hann heldur því hins vegar fram við lögreglu að hann hafi gert ráðstafanir til þess að læsingar á kjallaranum myndi opnast eftir ákveðinn tíma kæmi eitthvað fyrir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert