Konum í Malasíu verði meinað að fara einar til útlanda

Kvennasamtök í Malasíu hafa harðlega mótmælt fyrirætlunum stjórnvalda um að setja takmörk á ferði kvenna til útlanda á eigin vegum. Segja malasískir fjölmiðlar að hugmyndin sé að konur þurfi að fá skriflegt leyfi frá fjölskyldum sínum eða vinnuveitendum til að mega fara einar síns liðs út fyrir landsteinana.

Utanríkisráðherra Malasíu segir, að þetta eigi að gera til að koma í veg fyrir að glæpagengi láti konur smygla fíkniefnum. Var þessi áætlun gerð í kjölfar samantektar á dómsmálum þar sem malasískar konur hafa verið hnepptar í fangelsi erlendis.

Ráðherrann segir að í níutíu prósentum tilvika þar sem malasískar konur hafi verið fangelsaðar í útlöndum hafi verið um að ræða að þær höfðu verið narraðar til að smygla fíkniefnum fyrir glæpagengi. Með því að krefja konurnar um skriflega heimild fyrir ferðalögum sé auðveldara að hafa á hreinu til hvers þær séu að fara til útlanda.

Þessu andmæla kvennréttindasamtök harðlega, segja þetta brot á réttindum kvenna og hreinlega fáránlegar áætlanir. Gert sé ráð fyrir að konur séu ekki eins hæfar og karlmenn til að taka sjálfstæðar ákvarðanir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert