Fritzl vill ekki fara úr fangaklefanum

Josef Fritzl.
Josef Fritzl. AP

Austurríkismaðurinn Josef Fritzl neitar að fara í gönguferðir um garð fangelsisins sem hann dvelur í, og vill ekki fara út úr fangaklefanum. Hann verður væntanlega yfirheyrður af saksóknara síðar í vikunni, og mun gangast undir geðrannsókn.

Fangelsstjórinn í St. Pölten, þar sem Fritzl hefur setið inni síðan hann viðurkenndi að hafa haldið dóttur sinni fanginni í 24 ár og nauðgað henni ítrekað og eignast með henni sjö börn, segir að Fritzl sé ekki til neinna vandræða. Hann sé yfirvegaður og rólegur.

En hann vilji ekki fara út úr fangaklefanum. Geðlæknir sem hafi rannsakað hann á föstudaginn hafi komist að þeirri niðurstöðu að hann væri ekki í sjálfsvígshugleiðingum.

Þekktur afbrotafræðingur í Austurríki, Thomas Müller, sagði að Fritzl væri dæmi um háskalegan sjálfsdýrkanda. Slíkt fólk geti einungis aukið sjálfsvirðingu sína með því að níðast á öðrum.

„Ég myndi lýsa því þannig að innan í þessu fólki sé svarthol sem það reynir að fylla í með pyntingum. En í hvert sinn stækkar holan,“ sagði Müller m.a. í viðtali við austurríska útvarpið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert