Byrjaði að undirbúa leynikjallarann árið 1978

Lögregla í Austurríki segir, að Josef Fritzl, sem lokaði dóttur sína inni í neðanjarðarbyrgi í 24 ár, hafi byrjað að skipuleggja byrgið árið 1978 þegar dóttir hans var 12 ára. Þetta kom fram á blaðamannafundi í Austurríki í dag.

Þar kom einnig fram, að líðan Kerstin, sem er 19 ára og elsta barnið,sem Fritzl eignaðist með dóttur sinni, hafi skánað, en um tíma var stúlkunni ekki hugað líf. Ekki er vitað með vissu hvað er að stúlkunni en hún virðist vera með alvarlegan blóðsjúkdóm sem hugsanlega má rekja til súrefnisskorts.  Henni er haldið sofandi í öndunarvél.

Einnig sagði lögreglan, að eiginkona Fritzls og þrjú börn, sem hann eignaðist með dóttur sinni og voru í byrginu, séu hægt og hægt að kynnast undir eftirliti lækna og sérfræðinga.  Börnin þrjú höfðu aldrei komið út undir bert loft áður en þeim var bjargað úr prísundinni fyrir rúmri viku. Segja læknar, að litaraft þeirra sé smátt og smátt að verða eðlilegt en þau fengu D-vítamín í kjallaranum að kröfu Elisabeth, móður þeirra. 

Fram kom á blaðamannafundi lögreglunnar, að alls hafi þurft að fara um átta dyr til að komast inn í neðanjarðarbyrgið, sem Fritzl útbjó fyrir dóttur sína og börn þeirra. Alls eignaðist dóttirin sjö börn með föður sínum en eitt lést eftir fæðingu.

Fritzl notaði um það bil 500 kíló af járnbundinni steypu til að búa til jarðhýsið. Eftir því sem fleiri börn fæddust var jarðhýsið stækkað og segir lögregla að svo virðist sem þau, sem í jarðhýsinu bjuggu, hafi tekið þátt í þeim framkvæmdum. Íbúðarsvæðið var um 35 fermetrar. 

Lögreglumenn horfa á hús Fritzl fjölskyldunnar.
Lögreglumenn horfa á hús Fritzl fjölskyldunnar. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert