Papparassar elta Fritzl-börnin

Öryggisvörður á Mauer-sjúkrahúsinu í austurríska bænum Amstetten var á mánudaginn sleginn með kylfu af ljósmyndara í tilraun hans til að ná ljósmyndum af Elísabetu Fritzl og sex börnum hennar sem þar dvelja og reyna að aðlagast breyttum veruleika.

Margir fjölmiðlar hafa lýst sig reiðubúna að borga himinháar upphæðir til að geta birt myndir af fórnarlömbum hins 74 ára Josefs Fritzl, sem hann hélt föngnum í kjallara sínum um margra ára skeið og beitti svívirðilegu ofbeldi.

Dæmi eru um að reynt hafi verið að múta starfsfólki sjúkrahússins til að taka myndir af Elísabetu og börnunum með farsíma sínum. Stjórn sjúkrahússins segir ljósmyndarana ágengasta á nóttunni og hefur þurft að snúa nokkra niður sem hefur tekist að komast inn á lóðina og hafa reynt að taka myndir inn um glugga.

Til að bregðast við þessum ljósmyndurum hefur sjúkrahúsið leigt þjónustu einkarekins öryggisfyrirtækis, auk þess sem einungis fimmtán sérvaldir sjúkrahússtarfsmenn hafa fengið leyfi til að hlúa að og hafa afskipti af Fritzl-börnunum. Starfsmönnunum hefur einnig verið bannað að vera með farsíma, myndavélar eða önnur tæki sem geta tekið myndir eða hljóðbrot.

Sjúkrahússtjórnin segir þó, að allir starfsmenn sjúkrahússins séu sammála um að gera allt til að tryggja öryggi og frið fólksins. atlii@24stundir.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert