Auglýstu barn til sölu á eBay á eina evru

Uppboðssíðan Ebay.
Uppboðssíðan Ebay. mbl.is

Lögreglan í bænum Krumbach í Bæjaralandi greindi frá því í dag að hún hefði tekið í sína vörslu sjö mánaða gamlan dreng eftir að foreldrar hans auglýstu hann til sölu á uppboðsvefnum eBay á eina evru, eða sem svarar rúmlega eitt hundrað krónum.

Móðir drengsins er 23 ára. Hún sver og sárt við leggur að auglýsingin hafi verið grín, en engu að síður hafa barnaverndaryfirvöld fengið drenginn í hendur.

Hafin er rannsókn á því hvort foreldrarnir hafi gerst brotlegir við lög. Faðir drengsins er 24 ára.

Auglýsingin var svohljóðandi:

„Nýlegt barn til sölu sökum hávaðasemi. Það er drengur, tæplega 70 sm að lengd og má hafa í annað hvort í kerru eða vagni.“

Engin tilboð bárust þá hálfu þriðju klukkustundir sem auglýsingin var birt á þriðjudaginn. EBay lokaði á auglýsinguna og aðstoðaði lögreglu við að hafa uppi á foreldrunum.

Allmargir sem sáu auglýsinguna létu lögregluna vita.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert