Bróðir bin Ladens vill byggja brú yfir Rauðahaf

Enginn hefur gengið þurrum fótum yfir Rauðahafið frá því Móses leiddi Ísraelsmenn þar yfir á flóttanum frá Egyptalandi. En það gæti breyst ef áform Tarik bin Laden, bróðir Osama bin Laden, hryðjuverkaleiðtoga, verða að veruleika. Hann vill nefnilega reisa lengstu hengibrú heims milli Afríku og Arabíuskaga.

Að sögn blaðsins Washington Post vill bin Laden reisa göngubrú yfir Bab al-Mandeb sund, 29 km vegalengd milli Jemen og Djibouti. Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn verði jafnvirði 750-1500 milljarða króna. 

Fyrirtækið, sem hefur lagt fram hugmyndir um þessa framkvæmd, er í eigu Tarik bin Ladens, eldri bróður Osama, og hefur höfuðstöðvar í Dubai. Bin Laden fjölskyldan, sem er frá Sádi-Arabíu, hefur rekið verktakafyrirtækjasamstæðu áratugum saman.

Fjölskyldan afneitaði Osama fyrir rúmum áratug þegar hann lýsti yfir stríði gegn Bandaríkjunum og boðaði að taka ætti konungsfjölskylduna í Sádi-Arabíu af lífi.

Osama á 24 hálfbræður og 29 hálfsystur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka