Rice ver ákvörðun um innrás í Írak

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafnaði í dag á fundi um málefni Íraks sem haldinn er í Stokkhólmi, ásökunum um að bandarísk stjórnvöld hafi blekkt bandarískan almenning til þess að fara í stríð við Írak.

Rice vildi ekki svara beint þeim ásökunum sem fram koma í nýrri bók fyrrum talsmanns Hvíta Hússins, Scott McClellan, sem segir George Bush, Bandaríkjaforseta,  ekki hafa verið opinskáan og hreinskilinn um mál Íraks, og að hann hafi flanað út í ástæðulaust stríð. 

„Ég ætla ekki að tjá mig um bók sem ég hef ekki lesið," sagði Rice á blaðamannafundi í Stokkhólmi í dag. „En það sem ég hef að segja er að grunur um að Írakar, undir stjórn Saddam Husseins, réðu yfir gereyðingarvopnum var grundvallarástæðan."

„Það voru ekki einungis Bandaríkin sem töldu að hann (Hussein) réði yfir gereyðingarvopnum sem voru falin," sagði Rice og hafnaði því að ríkisstjórn Bandaríkjanna hafi vitað að upplýsingar leyniþjónustunnar hafi verið rangar.

Rice sagði að Bush væri heiðarlegur og hreinskilinn þegar hann útskýri ástæðuna fyrir innrásinni í Írak. Hún sagði jafnframt að hún væri sannfærð um að það hafi verið rétt og nauðsynleg ákvörðun að steypa Saddam Hussein af stóli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert