Hjón ákærð fyrir að limlesta fimm dætur sínar

Lögregla í Ósló hefur ákært hjón fyrir að limlesta fimm dætur sínar með því að skera hluta kynfæra þeirra í burtu. Að sögn fréttavefjar Aftenposten eru hjónin frá Gambíu en börn þeirra, sex að tölu, eru öll fædd í Noregi og eru norskir ríkisborgarar. Er þetta í fyrsta skipti, sem ákært hefur verið í málum af þessu tagi í Noregi.

Stúlkurnar, sem um ræðir, eru fimm, sjö, tíu, þrettán og fjórtán ára gamlar. Fjórar elstu dætur hjónanna búa nú í Gambíu en tvær þær yngstu eru í Noregi. Eru þær nú í umsjón barnaverndaryfirvalda.

Að sögn Aftenposten var málið kært til lögreglu árið 2005 en fyrst nú er gefin út ákæra. Lögmaður hjónanna hefur eftir þeim að þau telji sig ekki hafa gert neitt af sér. Konan gengur nú með sjöunda barn þeirra. 

Haft er eftir sérfræðingi að innan þriggja af fjórum kynþáttum í Gambíu tíðkist umkurður á stúlkubörnum, sem eru yfirleitt á aldrinum 2-5 ára þegar þeim er misþyrmt með þessum hætti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert