Danskir læknar sakaðir um fordóma

Danskir læknar, sem jafnframt eru múslímar, saka nú lækna af dönskum uppruna um að mismuna sjúklingum og tala niður til sjúklinga sem eru múslímar. Segja þeir spennu á milli múslíma og annarra í dönsku þjóðfélagi vera orðna svo mikla að nær ómögulegt sé fyrir lækna að falla ekki í þessa gryfju. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

„Á síðustu vikum höfum við orðið vitni að forherðingu, ónærgætnum raddblæ og nálgun lækna sem við höfum ekki séð fyrr,” segir Imran Rashid, læknir á sjúkrahúsinu í Herlev.

 „Þetta hefur áhrif á samband lækna af erlendum uppruna og annarra lækna og vekur efasemdir um að læknar séu færir um að veita öllum  sjúklingum sambærilega þjónustu. Þetta er mjög óþægileg þróun þar sem læknar þurfa að vera algerlega fordómalausir og lausir við menningartengd gildismat til að vera færir um að veita öllum sjúklingum sömu þjónustu. Það er það sem við höfum skuldbundið okkur til að gera með læknaeiðnum."

Nokkur umræða hefur farið fram í Danmörku að undanförnu um stöðu múslíma sem eru læknar. Það vakti m.a. töluverða umræðu er læknirinn Vibeke Manniche m.a. lýst því yfir að henni þætti meira ógnandi að fara til kvenkyns kvenlæknis með höfuðslæðu en til læknis sem væri karlkyns. „Ef Vibeke Manniches lítur höfuðslæðuna þessum augum hvernig getur hún þá hugsanlega verið hlutlaus gagnvart sjúklingi með höfuðslæðu?“ segir Imran Rashid.

Manniches vísar slíku hins vega algerlega á bug. „Þetta snýst ekki um það hvort þú ert hvítur, gulur eða svartur,” segir hún. „Það sem ég er að benda á er það að læknar þurfa að vera hlutlausir og að ekki má leika neinn vafi á hlutleysi þeirra. Það er sama á hvað ég trúi. Mér ber að skilja trúartákn mín eftir heima þegar ég fer í vinnuna. Sjúklingurinn má aldrei efast og því geta læknar hvorki borið höfuðslæður né stóra gullkrossa,” segir hún.   
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert