Forseti A-Tímor verður mannréttindaeftirlitsmaður SÞ

Jose Ramos-Horta, forseti Austur Tímor, mun gegna stöðu aðal eftirlitsmanns …
Jose Ramos-Horta, forseti Austur Tímor, mun gegna stöðu aðal eftirlitsmanns SÞ í mannréttindamálum. Reuters

Forseti Austur Tímor, Jose Ramos-Horta, sem lifði naumlega af morðtilræði af hendi uppreisnarhermanna fyrr á þessu ári, hefur samþykkt að verða æðsti embættismaður Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum. Þingmenn Austur Tímor staðfestu þetta í morgun.

Embættismenn SÞ hafa ekki staðfest þetta en heimildir innan stofnunarinnar hafa gert það óformlega og segja að Jose Ramos-Horta hafi samþykkt stöðuveitinguna í síðustu viku.

Forsetinn er Nóbelsverðlaunahafi og varð forseti Austur Tímor í maí 2007 en landið er yngsta lýðræðisríki Asíu. Hann mun halda blaðamannafund síðar í dag þar sem væntanlega verður greint frá þessu. Kanadamaðurinn Louise Arbour sem gegnir þessari stöðu SÞ mun láta af störfum í lok  júní.

Austur Tímor er fyrrverandi nýlenda Portúgal og hefur ríkt þar gríðarlegt atvinnuleysi og átt við ofbeldi að stríða síðan að það lýsti yfir sjálfstæði 2002. Það hafði áður verið undir stjórn Indónesíu.

Fjöldi fólks hefur látið lífið í átökum milli stjórnarhermanna og uppreisnarhermanna og tugir þúsunda íbúa búa ennþá í tjaldbúðum eftir að hafa flúið heimili sín.

Það var í febrúar sem uppreisnarhermenn skutu Ramos-Horta tvisvar og komust nærri því að drepa hann. Þeir sátu einnig fyrir bílalest forsætisráðherrans, Xanano Gusmao, en hann slapp ómeiddur.

Ramos-Horta kann fimm tungumál reiprennandi og deildi Nóbelsverðlaununum árið 1996 með landa sínum, Carlos Belo biskupi, fyrir að hafa leitt friðsama baráttu gegn indónesískum stjórnvöldum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert