Réttur Bandaríkjamanna til skotvopnaeignar staðfestur

Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði í dag að Bandaríkjamenn hafi rétt á því að eiga byssur til þess að verja sig og til að veiða. Er þetta fyrsti úrskurður Hæstaréttar í sambandi við byssueign í sjötíu ár. Dómur Hæstaréttar snérist um bann sem gilt hefur í Washingtonborg í rúma þrjá áratugi við að einstaklingar eigi skammbyssur.

Alls voru fimm dómarar af níu sammála um að fella úr gildi bann við skotvopnaeign  í Washington og byggir úrskurðurinn á stjórnarskrá Bandaríkjanna. Gengur Hæstiréttur jafnvel enn lengra heldur en ríkisstjórn Bush hafði vonast til.

Borgarstjórn Washington ákvað árið 1976 að banna einstaklingum í borginni að bera skammbyssur en þeir mega hafa riffla eða veiðibyssur á heimilum sínum, svo framarlega sem vopnin eru í læstum geymslum.

Málið snýst um svonefnda 2. breytingu á stjórnarskrá Bandaríkjanna sem kveður á um rétt manna til að bera vopn. Washingtonborg hefur túlkað ákvæðið þannig, að um sé að ræða réttindi þeirra sem starfa í lögreglu eða öryggisþjónustu.

En milljónir Bandaríkjamanna, með sambandið National Rifle Association í broddi fylkingar, telja að ákvæðið tryggi rétt allra Bandaríkjamanna til að eiga og bera byssur.

Árið 2003 höfðaði íbúi Washington mál gegn borgaryfirvöldum og taldi að brotið væri gegn réttindum hans fyrst hann fær ekki að eiga skammbyssu. Málið fyrir Hæstarétti nú tengist því.

Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert