Ferðir prinsins kostuðu átta milljónir

Vilhjálmur prins.
Vilhjálmur prins. mbl.is

Breska varnarmálaráðuneytið hefur birt skjöl þar sem fram kemur að fimm umdeildar þjálfunarflugferðir Vilhjálms prins hafi kostað breska skattgreiðendur andvirði tæplega átta milljóna íslenskra króna. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.

Gögnin voru birt að kröfu blaðsins The Guardian á grundvelli breskra upplýsingalaga . Prinsinn flaug m.a. Chinook þyrlum hersins í brúðkaup í Northumberland og steggjapartí á eyjunni Wight. Þá heimsótti hann kærustu sína og flaug yfir landareignir föður síns og ömmu.

„Allar flugferðir Wales flugforingja voru lögmætur þáttur af flugþjálfun hans," segir í nýrri yfirlýsingu breska flughersins vegna málsins. „Eftir á að hyggja gætti ákveðins barnaskaps við skipulagningu þjálfunar hans og kom það m.a fram í því að honum var leyft að nýta ferðirnar til einkaerinda og að æfa flugtak af einkalóð. Þetta dregur hins vegar ekki úr mikilvægi flugþjálfunar Wales flugforingja sem reyndist mjög árangursrík. Hann sýndi mikla flugfærni og fékk mikilvæga innsýn í hlutverk og  getu nútíma flugtækni."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert