Niðurrif heimila Palestínumanna undirbúin

Sarah Dwayat, móðir Hussam Dwayat sem réðst á vegfarendur með …
Sarah Dwayat, móðir Hussam Dwayat sem réðst á vegfarendur með jarðýtu á miðvikudag, með mynd af syni sínum. AP

Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels, hefur gefið Ísraelsher fyrirmæli um að undirbúa niðurif heimila tveggja Palestínumanna sem sagðir eru hafa framið hryðjuverk í Ísrael á þessu ári. Annar mannanna réðst með jarðýtu á vegfarendur í Jerúsalem á miðvikudag en hinn skaut átta námsmenn til bana er hann réðst inn í skóla í borginni í mars. Þetta kemur fram á fréttavef Ha'aretz.

Fyrirmæli Baraks fylgja í kjölfar þess úrskurðar Menachem Mazuz, ríkissaksóknara í Ísrael, að niðurrif heimila hryðjuverkamanna standist ísraelsk lög. Ísraelar hafa áður rifið hús Palestínumanna á Vesturbakkanum og Gasasvæðinu en mennirnir bjuggu báðir í Austur-Jerúsalem og því var óljóst hvort slíkar aðgerðir væru framkvæmanlegar þar. Þá ber mönnum ekki saman um það hvort árásin á miðvikudag hafi verið af pólitískum toga og geti því kallast hryðjuverk.

Í úrskurði Mazuz segir að hæstiréttur Ísraels hafi á undanförnum árum úrskurðað að niðurrif heimila hryðjuverkamanna brjóti ekki gegn stjórnarskrá landsins. Hann varaði hins vegar við því að málaferli muni líklega fylgja slíkum aðgerðum í Austur-Jerúsalem. Tvær aðrar fjölskyldur búa í öðru húsinu auk fjölskyldu hins meinta hryðjuverkamanns.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert