Chrysler byggingin seld á 60,7 milljarða króna

Chrysler byggingin í New York.
Chrysler byggingin í New York.

Fjárfestingasjóður Abu Dhabi, hefur keypt stærsta hluta Chrysler byggingarinnar á Manhattan í New York á átta hundruð milljónir dala, 60,7 milljarða króna, samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar.

Áður hefur komið fram í fjölmiðlum að Abu Dhabi Investment Council, fjárfestingasjóður með aðsetur í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, væri í viðræðum við dótturfélag Prudential Financialum að kaupa 75% af byggingunni. Það fékkst staðfest í dag að hjá talsmanni Prudential að félagið hefði selt sinn hlut í byggingunni í gær.

Chrysler byggingin, sem er 77 hæðir, er einn frægasti skýjakljúfurinn á Manhattan. Fasteignafélag í eigu Tishman Speyer Properties á 25% af byggingunni.

Meðal fjárfestinga Abu Dhabi Investment Council nýverið eru kaup í Citigroup bankanum fyrir 7,5 milljarð dala en sjóðurinn hefur yfir 800 milljörðum dala að ráða. Sjóðurinn er í eigu ríkasta emírsins í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Chrysler byggingin, sem var hönnuð af arkitektinum William Van Alen, var reist á árunum 1928-1930. Byggingin var sú hæsta í New York þar til Empire State byggingin var byggð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert