Neitað um lausn úr fangelsi

Susan Atkins
Susan Atkins AP

Susan Atkins úr Manson fjölskyldunni svokölluðu var í dag neitað um mannúðarlausn úr fangelsi af fangelsisyfirvöldum í Kaliforníu. Hún hefur setið inni í 37 ár og á skammt eftir ólifað vegna alvarlegra veikinda.

Susan Atkins var sakfelld árið 1970 fyrir að hafa myrt leikkonuna Sharon Tate  ásamt öðrum en leikkonan var þá komin átta mánuði á leið.

Atkins þjáist nú af krabbameini í heila og bað hún um að fá að enda ævi sína heima hjá sér, umkringd ættingjum og vinum en ekki fangelsisvörðum. Þessu hefur skilorðsnefnd fangelsisyfirvalda í Kaliforníu nú neitað.

Engin bandarísk kona hefur setið jafn lengi í fangelsi og Susan Atkins.

Lögfræðingur Susan Atkins hefur engu að síður lagt fram beiði um lausn hennar hjá æðsta rétti Los Angeles sýslu.

Saksóknari sýslunnar lýsti yfir ánægju sinni með fréttirnar. Bæði hann og aðstandendur leikkonunnar Sharon Tate voru því algerlega andsnúin að Atkins fengi að snúa heim. Fórnarlömb Atkins hefðu ekki fengið að deyja með reisn og því væri engin ástæða fyrir því að hún fengi það heldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert