Spenna magnast á milli Fatah og Hamas

Liðsmenn Hamas samtakanna við útför fimm félaga sinna á föstudag.
Liðsmenn Hamas samtakanna við útför fimm félaga sinna á föstudag. AP

Fatah hreyfingin sem ræður Vesturbakkanum handtók í morgun tugi stuðningsmanna Hamas-samtakanna í kjölfar þess að Hamas-samtökin, sem ráða Gasasvæðinu handtóku liðsmenn Fatah-hreyfingarinnar þar um helgina. Mikil spenna er á milli samtakanna eftir að fimm liðsmenn Hamas-samtakanna létu lífið í sprengingu á Gasasvæðinu á mánudag.

Forsvarsmenn Hamas hafa sakað liðsmenn Fatah um að hafa staðið á bak við sprenginguna en rúmt ár er síðan Hamas-samtökin tók völdin á Gasasvæðinu. 

Kennarar, læknar og stjórnmálamenn munu vera á meðal þeirra sem handteknir voru á vesturbakkanum í morgun. Þá settu Fatah-samtökin upp vegatálma við bæinn Nablus en mikill stuðningur er við Hamas-samtökin í borginni.

200 liðsmenn Fatah hreyfingarinnar voru handteknir á Gasasvæðinu um helgina og í morgun var tilkynnt að dreifing þriggja blaða sem gefin eru út á Vesturbakkanum hefði verið stöðvuð á Gasasvæðinu. Áður höfðu forsvarsmenn Hamas gagnrýnt blöðin fyrir hlutdrægni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert