Berjast um kjósendur

Barack Obama, forsetaframbjóðandi demókrata, og John McCain, forsetaframbjóðandi repúblikana, berjast nú um fylgi kjósenda og reyndu að höfða til kristinna kjósenda þegar þeir komu fram í sjónvarpsútsendingu með evangelíska prestinum Rick Warren í Kaliforníu.

Aðspurðir um siðferðislega bresti á ævi þeirra sagðist Obama hafa rekið sig á í æsku og drukkið áfengi og prófað eiturlyf, og kenndi hann eigingirni um og sagðist hafa verið blindur á fólkið í kringum sig.  McCain sagði sín stærstu mistök hafa verið að hans fyrsta hjónaband fór um þúfur. 

McCain fullyrti að verði hann kosinn næsti forseti Bandaríkjanna, muni hann gera allt í sínu valdi til þess að finna Osama Bin laden og sækja hann til saka.  Sagði hann Bin Laden dæmi um tæra illsku, og að róttækir múslímar væru helsta ógn 21. aldarinnar.  McCain sagði einnig að enginn mætti komast upp með að drepa þúsundir saklausra Bandaríkjamanna. 

Á fréttavef BBC kemur fram að Obama og McCain fóru m.a yfir afstöðu sína til fóstureyðinga og giftinga samkynhneigðra.  Sagðist Obama vera fylgjandi fóstureyðingum, og borgaralegum giftingum samkynhneigðra.  Hins vegar telur Obama að gifting í kirkju eigi aðeins að vera á milli karlmanns og konu.

McCain staðhæfði að hann væri á móti fóstureyðingum og sagðist vera á móti því að sum ríki leyfi giftingu samkynhneigðra.  Hins vegar væri hann fylgjandi borgaralegum hjónaböndum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert