Reynt að svindla á ferðamönnum í Búdapest

Norsk og sænsk stjórnvöld hafa varað ferðamenn, sem heimsækja Búdapest, höfuðborg Ungverjalands, við því að oft sé reynt sé að svíkja fé út úr þeim sem sækja krár og næturklúbba í borginni. Hafa norrænir ferðamenn orðið fyrir því að vera hótað líkamsmeiðingum þegar þeir gerðu athugasemdir við himinháa reikninga fyrir veitingar.

Fram kemur í norska blaðinu Aftenposten, að hópur Svía hafi farið á næturklúbb í Búdapest þar sem einnig voru haldnar nektarsýningar. Við innganginn stóð, að gestir gætu drukkuð ótakmarkað af bjór ef þeir greiddu 10 evrur í aðgangseyri, jafnvirði um 1200 króna. Þegar Svíarnir vildu greiða reikninginn reyndist hann hins vegar vera upp á 230 þúsund íslenskar krónur fyrir fjóra bjóra og snafsa.

Þegar Svíarnir mölduðu í móinn tóku dyraverðir einn þeirra í gíslingu og fylgdu hinum að næsta hraðbanka til að taka út fé til að greiða reikninginn.

Svíarnir segjast hafa heyrt af breskum ferðamönnum, sem lentu í svipuðum hremmingum en þeirra reikningur hljóðaði upp á  123 þúsund krónur. 

Aftenposten hefur eftir sendimanni í norska sendiráðinu í Búdapest að norskir ferðamenn hafi orðið fyrir svipaðri reynslu.  Bandaríska sendiráðið hefur birt lista yfir veitingastaði þar sem vitað er að slíkt hafi gerst. Þá hefur norska sendiráðið birt aðvörun til ferðamanna á heimasíðu sinni.

Blaðið segir, að lögregla og borgaryfirvöld í Búdapest hafi ákveðið að grípa til aðgerða gegn brotum af þessu tagi þar sem hætta sé á ferðamenn fari að sniðganga borgina. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert