Röð atburða leiddi til þess að vél Spanair fórst

Spænskir fjölmiðlar greina frá því í dag að sérfræðingar séu á því að röð atburða hafi leitt til þess að flugvél Spanair fórst á Barajas-flugvellinum í Madrid. Talið var í fyrstu að eldur hafi kviknað í vélinni en myndband, sem sýnir slysið, kollvarpar þeirri kenningu.

Spænsk stjórnvöld hafa tilkynnt að fólkið sem lést í slysinu, alls 153, fái opinbera útför sem mun fara fram í Almudena dómkirkjunni í Madrid. Á meðan vinna sérfræðingar að því að bera kennsl á líkin. 

Á myndbandi, sem flugmálayfirvöld Spánar (AENA) tók, sést hvernig Spanair flugvélin tókst á loft og hrapaði til jarðar stuttu síðar.

„Myndbandið sýnir glögglega að vélin varð alelda eftir að hún skall til jarðar,“ segir spænska dagblaðið El País í dag.

Haft hefur verið eftir sjónvarvottum að eldur hafi kviknað í vinstri hreyfli vélarinnar þegar hún tókst á loft. Yfirvöld hafa hins vegar aldrei staðfest þetta.

Sem fyrr segir létust 153 í slysinu og 19 eru slasaðir. Lík flestra eru skaðbrunnin og því hefur reynst erfitt að bera kennsl á þau.

Að sögn yfirvalda eru búið að bera kennsl á 59 einstaklinga með fingrafararannsóknum. Það þarf hins vegar að framkvæma DNA-próf til að bera kennsl á önnur lík.

Alberto Ruiz Gallardon, borgarstjóri Madrid, segir að útförin muni fara fram 1. september í Almudena dómkirkjunni.

Þjóðarsorg ríkir á Spáni. Hér sést spænski fáninn dreginn í …
Þjóðarsorg ríkir á Spáni. Hér sést spænski fáninn dreginn í hálfa stöng á landsbókasafninu í Madrid. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert