Færeyski menntamálaráðherrann segir af sér

Kristina Háfoss.
Kristina Háfoss.

Kristina Háfoss, menntamálaráðherra Færeyja, hefur sagt af sér embætti. Kristina var ráðherra fyrir Þjóðveldið, flokk Högna Hoydal, en átti ekki sæti á Lögþinginu. Högni segir að nýr ráðherra verði valinn og hann vilji að kona taki við embættinu. Sjö mánuðir eru frá því núverandi heimastjórn var mynduð.

Kristina Háfoss, sem er 33 ára, sagði við Rás 2 í Færeyjum, að ástæður afsagnarinnar væru persónulegar en tengdust ekki óvissuástandi sem verið hefur í færeyskum landsmálum síðustu vikurnar. Hún sagðist hins vegar hafa afar gaman af stjórnmálum og útilokaði ekki að hún myndi bjóða sig fram í næstu kosningum. 

Kristina starfaði sem deildarstjóri hjá Tryggingafélagi Færeyja og fékk tímabundið leyfi til að sinna ráðherraembættinu. Segir færeyska útvarpið að það leyfi hafi verið að renna út. Einnig gerir útvarpið því skóna, að Kristina hafi viljað losna undan því álagi sem fylgir ráðherraembættinu en hún á þrjú ung börn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert