Stappar stálinu í Georgíumenn

Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna.
Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna. AP

Næstu skref Vesturveldanna í Georgíudeilunni gætu skýrst eftir för Dick Cheney, varaforseta Bandaríkjanna, til Georgíu og Úkraínu í vikunni. Bæði ríkin hafa sóst eftir inngöngu í Atlantshafsbandalagið, NATO, og er förinni öðrum þræði ætlað að stappa stálinu í Georgíumenn.

Jafnframt er austurförinni ætlað að minna Rússa á stuðning Bandaríkjastjórnar við ríkin tvö, á sama tíma og Moskvustjórn lítur svo á að innganga ríkjanna í NATO yrði ógn við öryggi Rússlands. 

Mark Parris, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Tyrklandi, sagði „markmið Cheney að stappa stálinu“ í leiðtoga ríkjanna, með þeim orðum að þeir vildu fá á hreint hver afstaða Bandaríkjastjórnar væri gagnvart þeirri spennu sem upp er kominn á svæðinu. 

Heimsóknin fléttast einnig inn í bandarísku forsetakosningarnar. 

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal gerir þetta að umtalsefni á vef sínum, en þar segir að óljóst sé hvort Cheney muni takast að fylgja Vesturveldunum að baki Georgíu í deilunni, ellegar sannfæra kjósendur vestanhafs um réttmæti harðrar afstöðu forsetaframbjóðandans John McCain til tilburða Rússa á alþjóðavettvangi.

Meðal þess sem McCain hefur lagt til er að Rússum verði refsað með brottvísun úr G8, samtökum helstu iðnríkja og Evrópusambandsins.

Mörg áhrifamestu ríki ESB vilja hins vegar ekki ganga svo langt í deilunni og eru auk þess hikandi við að lýsa yfir stuðningi við inngöngu Georgíu og Úkraínu í NATO. Það er einnig óvíst hvort bandarískir kjósendur eru tilbúnir til að styðja harðari aðgerðir gegn Rússum, en eins og kemur fram í The Wall Street Journal er ekki hægt að ganga að því vísu að almenningur vestanhafs myndi styðja við aukin umsvif Bandaríkjahers í Georgíu. Vegur þar þungt þreyta gagnvart stríðunum í Írak og Afganistan, að viðbættum efnahagsþrengingum heima fyrir.

Má í þessu sambandi minna á að Joe Biden, varaforseta efni demókrata, hefur lagt til að Bandaríkjastjórn veiti Georgíu milljarða dala, um 83 milljarða króna, í styrki til uppbyggingar. Georgía sendi fjölmennt herlið til Íraks og má ljóst vera að demókratar munu styðja við ríkið í deilunni, þótt Barack Obama hafi fremur lagt áherslu á að fara hófsamari og diplómatískari leiðir en að beita refsivendinum.

Ef frá er talinn stuðningur Bush-stjórnarinnar við lýðræðisvæðingu fyrrum leppríkja Sovétríkjanna gegnir Georgía mikilvægu hlutverki í orkuöryggi landsins, enda aðgangur að olíulindunum í Kaspíahafinu mikilvægur til að tryggja öruggt framboð á olíumörkuðum heimsins. Heimsókn Cheney til Aserbaídsjan, annars mikilvægs olíuflutningalands, undirstrikar þetta mikilvægi.

„Cheney hefur skilning á orkumálum,“ sagði Ariel Cohen, sérfræðingur um Rússland hjá Heritage-stofnuninni í Washington, og bætti því við að „þetta snerist jafn mikið um flutningsleiðirnar [á olíu] frá austri til vesturs og um þá hernaðarlegu ógn sem væri til staðar“. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert