Vegið að stöðu kvenna í Íran

Stjórnarfrumvarp um breytingar á hjúskaparlögum liggur nú fyrir íranska þinginu en í frumvarpinu er m.a kveðið á um að eiginmenn þurfi ekki lengur að fá samþykki fyrstu eiginkonu sinnar til að taka sér fleiri eiginkonur. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Samkvæmt íslam mega múslímakarlar taka sér allt að fjórar eiginkonur að því tilskildu að þeir komi eins fram við þær allar. Í Íran og Sýrlandi hefur hins vegar verið kveðið á um það í landslögum að eiginmenn þurfi samþykki fyrstu eiginkonu sinnar til að taka sér fleiri konur.

Breytingatillögunni var hafnað í fyrstu atkvæðagreiðslu um frumvarpið á þinginu en nokkrir mánuðir eru í að endanleg breytingatillaga verði lögð fyrir þingið.

Fremur fátítt er að íranskir karlar eigi fleiri en eina eiginkonu en kvenna og mannréttindasamtök í landinu hafa gagnrýnt breytingatillöguna harðlega. Segja þau hana vega mjög að stöðu kvenna bæði innan samfélagsins og fjölskyldunnar, jafnvel þótt fremur sé um hugmyndafræði en framkvæmdaatriði að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert