McCain segir stefnu Obama heimskulega

Forsetaframbjóðandi repúblikana, John McCain, sagði í ræðu sem hann flutti í dag að skattastefna Baracks Obama, keppinautar hans demókratamegin, væri einfaldlega „heimskuleg“, eftir að nýjar fréttir úr fjármálaheiminum hristu upp í kapphlaupinu um forsetaembættið.

McCain sagði í ræðunni að væri hann forseti myndi hann reka yfirmann fjármálaeftirlits Bandaríkjanna fyrir að breyta Wall Street í spilavíti og lagði til að stofnaður yrði nýr sjóður til að bjarga fyrirtækjum í vanda áður en hann yrði óleysanlegur.

„Obama talar eins og hann sé harður í horn að taka gagnvart fjármálamörkuðum en staðreyndirnar segja aðra sögu,“ sagði McCain.

McCain sagði að keppinautinum hefði ekki tekist að gera neitt til að forða hættuástandinu í tengslum við vanda Freddie Mac og Fannie Mae. Þessir tveir risastóru sjóðir tryggja milljarða dollara í veðlánum. Stjórnvöld tóku þá yfir hinn 7. september.

„Hann lyfti ekki fingri til að afstýra hættunni,“ sagði McCain og sakaði Obama um að segja ekkert í þinginu þrátt fyrir að veðmálakreppan hefði verið í hraðri uppsiglingu.

McCain skaut líka á varaforsetaefni Obama, þingmanninn Joseph Biden, sem sagði í viðtali fyrr í vikunni að það myndi lýsa föðurlandsást ef skattar auðugra Bandaríkjamanna yrðu hækkaðir á tímum efnahagslægðar.

„Að hækka skatta í efnahagslægð lýsir ekki föðurlandsást,“ sagði McCain. „Það er einfaldlega heimskulegt.“ 

Á meðan McCain flutti ræðu sína truflaði hann maður sem var að mótmæla stríði. Hann kallaði: „John, við unnum aldrei neitt, við töpuðum í Víetnam.“

John McCain skaut föstum skotum á keppinautinn.
John McCain skaut föstum skotum á keppinautinn. BRIAN SNYDER
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert