Obama vinnur á

AP

Barack Obama bætir við sig fylgi í skoðanakönnunum en fimm dagar eru þar til þeir John McCain mætast í fyrstu frambjóðanda kappræðunum. Velgengi Obama kemur til vegna þess sem talin eru vera slök viðbrögð McCains við efnahagsvandanum.

Bandaríska þingið og stjórn George W. Bush hafa verið að takast á um 700 milljarða dollara áætlun sem ætlað er að bjarga bandarískum efnahag frá því að hrynja algerlega. Hefur þetta aukið á áhyggjur kjósenda sem hafa efnahagsvandann efst í huga um þessar mundir en til dæmis ekki stríðin í Írak og Afganistan.

Fjármálaráðherrann, Henry Paulson, barðist gegn því í gær að demókrötum tækist að koma í gegn auka fjárveitum til að hjálpa mjög skuldsettum heimilum og sagði að fjármálamarkaðir þyrftu enn á aðstoð að halda vegna álags og ekki væri ráðlegt að vera með aðrar aðgerðir í gangi sem gætu truflað.

Obama var á kosningaferðalagi í Norður-Karólínu í dag eftir að hafa lýst því yfir í gær að McCain væri örvæntingarfullur eftir að hafa gert sér grein fyrir að hann og flokkur hans, Repúblikanaflokkurinn, bæru í raun ábyrgð á hruni fjármálageirans. McCain varði sig og sagði Obama vera með hræðsluáróður.

McCain hefur lengi barist fyrir því að slaka á reglum fyrir fjármálamarkaðinn en margir kenna litlu regluverki um óróann á Wall Street. Þetta veldur honum erfiðleikum núna og Obama hefur nýtt sér það.

McCain hefur nú lýst því yfir að þörf sé á meiri stjórnun yfir mörkuðunum. Hann hefur sömuleiðis lent í erfiðleikum í vikunni vegna annarra yfirlýsinga, svo sem þeirri að hafa sagt á mánudaginn var að styrkar stoðir væru undir bandarískum efnahag.

Nýjar skoðanakannanir benda til þess að fylgi McCains hafi dvínað í kjölfar óróans á bandarískum mörkuðum.  Nýjasta könnun Gallup sýnir Obama með 50 prósenta fylgi og McCain með 44 prósent. Síðasta sunnudag, degi áður en hlutabréf féllu á Wall Street, mældust þeir nokkurn veginn jafnir, McCain var með 47 prósent og Obama 45.

Báðir frambjóðendur hamast nú við að undirbúa sig undir fyrstu kappræðurnar sem verða þeirra á milli á föstudag. Gefa þær McCain tækifæri til að snúa við dvínandi fylgi.

Aukið fylgi Obama skýrist ekki eingöngu af efnahagssamdrættinum heldur einnig af harðari kosningaáróðri.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert