McCain hringdi í Jóa pípara

John McCain, forsetaframbjóðandi repúblikana í Bandaríkjunum, sagðist á kosningafundi í gærkvöldi hafa hringt í Jóa pípara í gærmorgun en Jói þessi, sem heitir raunar Samuel, er skyndilega orðinn ein af aðalpersónunum í kosningabaráttunni fyrir bandarísku forsetakosningarnar. 

Samuel „Joe" Wurzelbacher frá Toledo í Ohio varð heimsfrægur eftir að hann stóð upp á kosningafundi Baracks Obama, frambjóðanda demókrata, fyrr í vikunni og spurði spurninga um skattastefnu frambjóðandans.

McCain nefndi Jóa pípara nokkrum sinnum í kappræðum þeirra Obama aðfaranótt fimmtudags og sagði hann vera dæmi um atvinnurekanda sem sæi fyrir sér að skattar hans myndu hækka ef Obama yrði kjörinn forseti.

Á kosningafundi í Melbourne á Flórída í gærkvöldi sagðist McCain hafa hringt í Wurzelbacher í gærmorgun. „Hann er frábær náungi og stoltur af afa sínum, sem þjónaði í bandaríska landgönguliðinu." 

Nokkrir stuðningsmenn McCains á fundinum voru í stuttermabolum sem á stóð: Halló, ég heiti Jói pípari. 

McCain hefur sent frá sér sjónvarpsauglýsingu þar sem sýnt er frá viðskiptum Obama og Wurzelbachers og einnig er vitnað til þeirra ummæla Obama um að hann vilji jafna út auðæfunum. Obama hefur jafnframt fullyrt, að einungis þeir einstaklingar, sem eru með yfir 200.000 dali í ársekjur, jafnvirði 22 milljóna króna, og fjölskyldur með yfir 250 þúsund dala tekjur, myndu greiða hærri skatta; skattar flestra annarra muni lækka.

Blaðið Toledo Blade upplýsti í gær, að Wurzelbacher hefði ekki réttindi til að starfa sem pípulagningarmaður í Ohio og að hann skuldaði skatt. Þá viðurkenndi hann í samtali við ABC fréttastofuna, að tekjur fjölskyldu hans væru langt frá 250 þúsund dölum.

McCain talaði einnig um Jóa á kosningafundi á Flórída fyrr í gær.

„Við munum berjast fyrir Jóa, vinir mínir, við munum berjast fyrir hann," sagði McCain. Hann fullvissaði áheyrendur einnig um, að  Wurzelbacher tengist framboði hans ekki neitt. „Hann spurði bara spurningar." 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert