Saka Bandaríkin um hryðjuverk

Walid Muallem, utanríkisráðherra Sýrlands.
Walid Muallem, utanríkisráðherra Sýrlands. Reuters

Utanríkisráðherra Sýrlands sakar Bandaríkjastjórn um að hafa framið hryðjuverk og glæp þegar bandarískar herþyrlur gerðu loftárás á skotmörk í Sýrlandi.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að Walid Muallem segi að í gær hafi fjórar þyrlur flogið um 13 km inn fyrir sýrlenska lofthelgi. Hann segir að þyrlurnar hafi allar tekið á loft í Írak. Muallem segir að átta óvopnaðir saklausir borgarar hafi fallið í árásinni, þar á meðal þrjú börn.

Bandaríkin hafa hvorki játað því né neitað að hafa staðið á bak við þessa árás.

Hins vegar á ónefndur bandarískur embættismaður að hafa sagt í samtali við AFP-fréttastofuna að Bandaríkjaher hafi staðið á bak við loftárásir á erlenda bardagamenn sem hafi ógnað bandarískum hermönnum í Írak. Sú aðgerð hafi heppnast vel.

Bandaríkjastjórn hefur sakað stjórnvöld í Sýrlandi um að hleypa uppreisnarmönnum yfir landamærin til Íraks. Muallem heldur því hins vegar fram að sýrlensk stjórnvöld reyni eftir fremsta megni að herða eftirlit við landamæri Sýrlands og Íraks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert