SÞ vill aflétta viðskiptabanni á Kúbu

Frá allsherjarþingi SÞ.
Frá allsherjarþingi SÞ. Reuters

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti 17. árið í röð ályktun þar sem ríki eru hvatt til þess að aflétt verði viðskiptabanni Bandaríkjanna á Kúbu. Alls greiddu 185 ríki með ályktuninni en þrjú voru andvíg: Bandaríkin, Ísrael og Palau og Marshalleyjar sátu hjá.

Í ályktuninni eru ríki að venju hvött til að beita ekki slíkum lögum eða aðgerðum í samræmi við skyldur þeirra samkvæmt stofnsáttmála SÞ.

Já-atkvæðunum fjölgaði um eitt frá í fyrra. Þegar niðurstaðan birtist á sjónvarpsskjá í þingsalnum brutust út fagnaðarlæti. 

Felipe Perez Roque, utanríkisráðherra Kúbu, sagði fyrir atkvæðagreiðsluna, að það væri undir næsta Bandaríkjaforseta komið hvort þarlend stjórnvöld viðurkenni að viðskiptabannið sé mislukkuð stefna. Sagði hann að Bandaríkin væru einangruð  og þótt þau væru hernaðarlega sterk styddi umheimurinn Kúbu, sem byggi yfir siðferðilegum styrk og staðfestu.

Ron Goddard, sendimaður Bandaríkjanna hjá SÞ, sagði að öll ríki hefðu rétt til að takmarka viðskipti. Sagði hann að viðskiptabannið væri réttmætt vegna þess að Kúba væri ekki lýðræðisríki og takmarkaði pólitískt og efnahagslegt frelsi þegnanna.

Bandaríkjamenn settu viðskiptabann á Kúbu árið 1962 og hert hefur verið á því frekar en hitt í forsetatíð Georges W. Bush. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert