Obama lofar að taka á efnahagsvandanum af krafti

Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur heitið því að takast á við fjármálakreppuna og efnahagsvandann af krafti um leið og hann tekur við embættinu með formlegum hætti í janúar.

Hann segir að hann vilji sjá Bandaríkjaþing samþykkja nýjan aðgerðarpakka sem fyrst sem ætlað er að blása lífi í bandarískt efnahagslíf.

Hann sagði jafnframt að hann muni gefa sér tíma til að raða í æðstu embætti nýrrar Bandaríkjastjórnar. Þetta vilji hann gera til að sjá til þess að hann velji rétt fólk í embættin.

Þá sagði hann að það sé ekki hægt að sætta sig við það að Íranar vilji koma sér upp kjarnorkuvopnum, og þá hvatti hann írönsk stjórnvöld til að hætta að styðja hryðjuverkahópa.

Auk þess minntist Obama á að það væri mikilvæg að styrkja undirstöður bílaiðnaðarins í Bandaríkjunum og aðstoða hann í þeirri fjármálkreppu sem nú ríður yfir heiminn.

Obama, sem hélt í dag sinn fyrsta blaðamannafund frá því hann var kjörinn forset, sagðist vera með björgunaráætlun í smíðum fyrir bandarísku millistéttina.

Joe Biden, verðandi varaforseti Bandaríkjanna, var viðstaddur blaðamannafundinn sem fram fór á hóteli í Chicago.

Áður en Obama ræddi við blaðamenn þá fundaði hann með 17 efnahagsráðgjöfum.

 „Það mun ekki taka stuttan tíma og það mun ekki vera auðvelt fyrir okkur að komast úr þessari holu sem við erum í,“ sagði Obama á fundinum.

„Bandaríkin er hins vegar sterk þjóð og þrautseig, og ég veit að við munum ná árangri ef við setjum flokkadrætti og pólitískt dægurþras til hliðar og tökum höndum saman sem ein þjóð.“

Obama á fréttamannafundinum í Chicago.
Obama á fréttamannafundinum í Chicago. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert