Sendiherra Þýskalands í Rúanda vísað úr landi

Íbúar í Rúanda fjölmenntu fyrir framan þýska sendiráðið í Kigali …
Íbúar í Rúanda fjölmenntu fyrir framan þýska sendiráðið í Kigali til að mótmæla handtöku Rose Kabuye. AP

Stjórnvöld í Rúanda hafa vísað sendiherra Þýskalands úr landi og kallað sendiherra sinn heim frá Þýskalandi. Ríkisstjórnir þjóðanna deila nú eftir að aðstoðarkona forseta Rúanda var handtekin á flugvelli í Frankfurt.

Rosemary Museminali, utanríkisráðherra Rúanda, segir að þýski sendiherrann sé ekki velkomin aftur til landsins fyrr en búið verði að finna lausn á málinu. Rose Kabuye var handtekin á sunnudag í tengslum við morð á fyrrum forseta Rúanda sem varð kveikjan að þjóðarmorðunum árið 1994.

Hún er ein af níu háttsettum embættismönnum sem hafa verið eftirlýsti í tengslum við morðið á Juvenal Habyarimana, en hann fórst þegar flugvél sem hann var í var skotin niður.

Morðið á forsetanum er talið hafa orðið til þess að um 800.000 manns létust í þjóðernishreinsunum í Rúanda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert