Samið um samstarf gegn vígasveitum hútúa

Flóttafólk á átakasvæði í Austur-Kongó.
Flóttafólk á átakasvæði í Austur-Kongó. Reuters

Ráðamenn í Afríkuríkjunum Austur-Kongó og Rúanda hafa náð samkomulagi um samstarf í baráttunni gegn vopnuðum hópum hútúa sem taldir eru undirrót harðra átaka síðustu vikurnar.

Vopnaðir hópar hútúa flúðu til Austur-Kongó eftir að hafa tekið þátt í fjöldamorðum í Rúanda árið 1994. Talið er að um 800.000 manns hafi legið í valnum, flestir þeirra tútsar.

Uppreisnarmenn úr röðum kongóskra tútsa segja að þeim stafi mikil hætta af hútúunum. Þeir segjast ekki ætla að hætta uppreisninni nema vopnuðu hóparnir verði afvopnaðir.

Utanríkisráðherrar ríkjanna tveggja segja að samkomulagið feli m.a. í sér að útsendarar leyniþjónustu Rúanda fari til Austur-Kongó til að aðstoða við að afvopna hútúana. Samkvæmt samningi sem ríkin tvö undirrituðu í fyrra átti afvopnun hútúanna að ljúka í ágúst síðastliðnum.

Um 250.000 manns hafa þurft að flýja heimkynni sín í Austur-Kongó vegna átakanna síðustu vikur. Varað hefur verið við hungursneyð og farsóttum á átakasvæðinu verði ekki komið á friði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert