Norðmenn einangraðir í baráttunni gegn kreppunni

Stórþingið í Ósló.
Stórþingið í Ósló. norden.org/Mikael Risedal

Fjallað er um vaxandi einangrun Norðmanna vegna afstöðu þeirra til Evrópusambandsaðildar í leiðara Nils Morten Udgaard í Aftenposten í dag.

Segir þar m.a að á sama tíma og aukins áhuga gæti á samvinnu á grundvelli Evrópusambandsins og samræmdum efnahagsaðgerðum á vegum þess á Íslandi, í Danmörku og Svíþjóð virðist Norðmenn einangraðri en nokkru sinni vegna andstöðu sinnar við ESB aðild. 

Udgaard segir að nú þegar heimurinn virðist á leið inn í dýpstu efnahagskreppu frá fjórða áratug síðustu aldar, leiti þjóðarleiðtogar samvinnu um lausn vandans. Slík samvinna fari fyrst og fremst fram á grundvelli Evrópusambandsins innan Evrópu og þar sem Norðmenn standi utan Evrópusambandsins eigi þeir litla sem enga aðild að slíkri samvinnu eða þeirri stefnumótunarvinnu sem unnin sé í tengslum við hana.

Þannig hafi Svein Gjedrem, seðlabankastjóri Noregs, að mestu setið heima á meðan seðlabankastjórar,  forsætis- og fjármálaráðherrar hafi streymt til Brussel og Frankfurt til skrafs og ráðagerða að undanförnu. Fátt markvert virðist einnig hafa komið fram á fundum Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, og Jens Stoltenberg forsætistráðherra á fundum þeirra með evrópskum starfsbræðrum sínum á undanförnum vikum þar sem engar upplýsingar um viðræðurnar sé að finna á heimasíðum ráðuneyta þeirra.

Í lok greinarinnar segir hann að þrátt fyrir digran olíusjóð virðist aðstoð við Íslendinga vera eina verkefnið sem til standi að Norðmenn taki þátt í í tengslum við lausn fjármálakreppunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert