Í gíslingu vegna ógreidds reiknings

Það er hart að þurfa að borga fyrir að komast …
Það er hart að þurfa að borga fyrir að komast inn á eigin hótelherbergi. Morgunblaðið/ Brynjar Gauti

Rúmlega eitthundrað belgískum og frönskum ferðamönnum er nú haldið „í gíslingu“ af hóteli nokkru í Tyrklandi. Ferðalangarnir, sem flestir eru eldri borgarar, eru þar á vegum belgískrar ferðaskrifstofu, sem lent hefur í fjárhagsörðugleikum.  

Stjórnendur hótelsins, sem er í Antalya í Tyrklandi, gripu til róttækra aðgerða á laugardag til að tryggja að reikningur ferðaskrifstofunnar sem hljóðar upp á  80.000 evrur, eða um 14 milljónir íslenskra króna yrði greiddur.

Þegar ferðaskrifstofan Christophair lenti í greiðslustöðvun, var helmingur útistandandi reiknings hennar greiddur af tryggingafyrirtæki Christophair. En þar sem að farþegarnir eiga að halda heim á morgun ákváðu hótelstjórnendur að fara í hart til að fá restina greidda. Voru farþegar því rukkaðir um 275 evrur, tæplega 49.000 kr. til að fá mat og aðgang að herbergjum sínum.

„Það er ekki hægt að halda fólki þannig í gíslingu,“ sagði Richard Naujokas, ferðaskrifstofueigandi  í viðtali við belgíska sjónvarpsstöð, en Naujokas hafði keypt sig inn í ferð Christophair. „Það  má ekki taka þetta út á viðskiptavinunum. Það er verið að kúga viðskiptavini mína um greiðslu og það er rangt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert