Bangkok-flugvöllur í gíslingu

Vegatálmar við flugvöllinn
Vegatálmar við flugvöllinn SUKREE SUKPLANG

Um 3.000 flugfarþegar sitja nú fastir á flugvellinum í Bangkok og hefur 78 flugferðum verið aflýst þar sem þúsundir mótmælenda hafa tekið yfir flugvöllinn. Mótmælendur krefjast þess að ríkisstjórn landsins undir stjórn Somchai Wongsawat fari frá völdum og saka hana um spillingu.

Sprenging varð á flugvellinum í morgun og særðust tveir. Handsprengjum var varpað annarsstaðar í borginni og særðust sjö.

Mótmælendurnir neita að ræða við neinn nema forsætisráðherrann en hann er væntanlegur heim úr opinberri heimsókn í dag. Mótmælendur eru úr röðum PAD-samtakanna og hafa mótmæli staðið yfir frá því í maí. Ríkisstjórnin er sökuð um að lúta stjórn fyrrverandi forsætirsráðherra landsins Thaksin Shinawatra sem var hrakinn frá völdum árið 2006 og er nú í útlegð til að forðast dóm vegna spillingar.  

Mótmælendur hafa þegar tekið yfir stjórnarbygginguna í miðborg Bangkok og beina nú sjónum að flugvellinum þar sem stjórnvöld hafast við í tímabundnu húsnæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert