Búrkan bönnuð í háskólum

Búrkan verður bönnuð í hollenskum menntastofnunum.
Búrkan verður bönnuð í hollenskum menntastofnunum. Reuters

Hollendingar hyggjast banna búrkuna alfarið í háskólum í landinu. Gildir bannið ekki eingöngu um nemendur og kennara, heldur á það líka við um mæður nemenda og aðra þá sem koma inn á lóðir háskólanna. 

Menntamálaráðherrann, Ronald Plasterk, tilkynnti þinginu að bannið, sem upphaflega átti bara að ná yfir skólaskyldualdur, skyldi nú líka ná yfir æðri menntastofnannir.  Undir það skyldu falla nemendur, kennarar, ræstitæknar og foreldrar - sem og allar aðrar konur sem kæmu inn á lóðir menntastofnanna.

„Öll klæði sem dylja andlitið verða bönnuð. Meiningin með því er sú að allir þeir sem hafa samskipti hver við annan á skólalóðunum geti horfst í augu hver við annan, geti séð andlit hvers annars,“ hefur AFP-fréttastofan eftir talsmanni ráðherrans.

„... ef þú vilt vera þar (í skólanum) sem starfsmaður, sem foreldri, sem kennari eða nemandi þá verður þú að sýna andlit þitt,“ sagði ráðherrann er  hann kynnti upphafleg áform sín í september.

Krafan um að bannið næði til líka til æðri menntastofnanna kemur hins vegar frá meirihluta hollenska þingsins.

Menntastofnunum hefur til þessa verið í sjálfsvald sett hvort að þær settu reglur um slæðuburð og annan klæðnað, en gert er ráð fyrir að nýju lögin taki gildi 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert