Ætla að trufla hvalveiðar

Daryl Hannah og Paul Watson ræða við fréttamenn í Brisbane …
Daryl Hannah og Paul Watson ræða við fréttamenn í Brisbane í vikunni. AP

Paul Watson, leiðtogi umhverfisverndarsamtakanna Sea Shepherd, er að búa skip samtakanna undir siglingu á hvalamiðin í Suðurhöfum þar sem japanski hvalveiðiflotinn ætlar að veiða rúmar 900 hrefnur og 50 langreyðar í vetur. Kvikmyndastjarnan Daryl Hannah verður í áhöfn Watsons. 

Skipið Steve Irwin mun fara frá Brisbane í Ástralíu á morgun og er ætlunin að trufla hvalveiðar Japana.  Watson segir, að áhöfn skipsins muni ekki leggja líf manna í hættu en hann búist samt við því, að japönsku hvalveiðimennirnir muni þó ekki verða nein lömb að leika sér við.

Japanski flotinn lagði af stað á miðin í nóvember. Watson ætlar að vera kominn þangað um miðjan mánuðinn og dvelja þar fram í mars.  

Félögum í Sea Shepherd og hvalveiðimönnum hefur lent saman nokkrum sinnum á undanförnum árum. Í febrúar árið 2007 lenti skip samtakanna í árekstri við hvalveiðiskip. Í janúar á þessu ári tókst tveimur Sea Shepherd-liðum að komast um borð í hvalveiðiskip og þar var þeim haldið í nokkra daga þar til starfsmenn áströlsku tollgæslunnar sótti þá. 

Hvalveiðimenn segja, að náttúruverndarsinnarnir kasti reipum og netum í sjóinn og það flækist síðan í skipsskrúfum. Þá kasti þeir reyksprengjum og úldnu smjöri á hvalveiðiskipin.  

Hannah, sem hefur m.a. leikið í myndunum   Splash og Blade Runner, sagði að hægt yrði að stöðva hvalveiðarnar ef umhverfisverndarsinnar tækju höndum saman og ríkisstjórnir settu lög um hvalveiðibann.  

„Þetta eru einu mennirnir, sem berjast í raun og veru gegn ólöglegum hvalveiðum," sagði hún á blaðamannafundi í Brisbane.  
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert