Jackson yngri Frambjóðandi 5

Rod Blagojevich, ríkisstjóri Illinios, hefur enn sem komið er ekki svarað kalli Barack Obama, verðandi forseta, um að segja af sér eftir að alríkislögreglan, FBI, handtók hann sl. þriðjudag vegna spillingarmála. Blagojevich var látinn laus gegn tryggingu í gær, miðvikudag, og sneri þá strax aftur til starfa á skrifstofu sinni. „Vinnudagurinn var bara venjulegur,“ sagði talskona ríkisstjórans.

Upplýst var í gær að fulltrúadeildarþingmaðurinn Jesse Jackson yngri er sá sem Blagojevich heldur fram að gert hafi út til sín sendimann til að bjóða greiðslu fyrir þingsæti Obama í öldungadeild bandaríska þingsins sem nú er á lausu og kemur í hlut ríkisstjórans að skipa í.

Jackson gaf út yfirlýsingu á fundi með fréttamönnum í Washington síðdegis í gær og neitar að hafa aðhafst nokkuð rangt.

Í afritum af hljóðritunum með hleruðum samtölum Blagojevich í fórum lögreglu og gerð voru opinber í gær er haft eftir ríkisstjóranum að maður sem í gögnunum er auðkenndur sem Frambjóðandi 5 sé tilbúinn að greiða sér 500 þúsund dali. Svo sé annar tilbúinn að borga milljón dali ef „ég geri hann að öldungadeildarþingmanni.“

Jackson sem er sonur hins kunna baráttumanns fyrir réttindum blökkumanna og fyrrum forsetaframbjóðanda, Jesse Jackson, fullyrti við blaðamenn að hann sætti ekki rannsókn í málinu enda kvaðst hann aldrei hafa reynt að ná sambandi við Blaogjevich til að ræða kaup á þingsætinu.

„Ég vil taka skýrt fram: Ég hafna og fordæmi greiðslu-fyrir-greiða stjórnmál (e. pay-to-play) og á engan þátt ólögmætu athæfi af einu eða neinu tagi,“ segir Jackson í yfirlýsingu sinni. „Ég hef aldrei hvatt til né veitt neinum leyfi til að gefa Blagojevich ríkisstjóra loforð fyrir mína hönd.“

Hann bætti síðan við að hann teldi að ríkisstjórinn ætti að segja af sér og framselja valdið til að skipa nýjan öldungadeildarþingmann. Fleiri leiðtogar demókrata hafa krafist afsagnar Blagojevich svo sem framámenn flokksins í öldungadeildinni í Washington sem benda á að þeir geti hafnað vali ríkisstjórans.

Málið er engu að síður hið neyðarlegasta fyrir Jackson yngri sem lagt hefur áherslu á að hann sé utangarðsmaður í stjórnmálaati Illinios og óhræddur staðið uppi í hárinu á bæði Richard M. Daley, borgarstjóra í Chicago og Blagojevich, svo sem með stuðningi sínum við þriðja flugvöllinn í Chicago.  Hann hefur setið á þinginu í Washington í 13 ár.

Jesse Jackson Jr á fréttamannafundi í Washington í gær.
Jesse Jackson Jr á fréttamannafundi í Washington í gær. MITCH DUMKE
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert