Bagger kominn heim

Stein Bagger.
Stein Bagger.

Mikill viðbúnaður lögreglu og fjölmiðla er á Kastrupflugvelli þennan morgunin því danski kaupsýslumaðurinn Stein Bagger, sem grunaður er um að hafa svikið á annan milljarð danskra króna út úr fyrirtæki sínu, kom þangað í morgun frá Los Angeles.

Að sögn danskra fjölmiðla lenti Bagger á Kastrup klukkan 7:32 að íslenskum tíma en hann kom þangað í lögreglufylgd með flugvél Delta Airlines. Gert er ráð fyrir að Bagger komi fyrir rétt í Lyngby síðar í dag þar sem krafist verður gæsluvarðhalds yfir honum.

Bagger hvarf frá Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum fyrir tæpum þremur vikum. Hann virðist hafa farið þaðan til New York, ekið þvert yfir Bandaríkin til Los Angeles og gefið sig þar fram á lögreglustöð í miðborginni. Hann var í kjölfarið framseldur til Danmerkur. 

Margt er enn á huldu um ástæður þess að Bagger lét greipar sópa um fé fyrirtækisins IT Factory og sat löngum stundum við að falsaða pantanir og vörunótur. Hann hefur sjálfur sagt að hann hafi verið beittur hótunum en ljóst er að hluti af fénu, sem hann sveik hún, hefur farið til einkaneyslu hans og fjárfestinga. 

Danska blaðið Berlingske velti því fyrir sér um helgina, í ljósi tengsla Baggers við samtökin Vítisengla, hvort IT Factory hefði verið notað til að þvætta fíkniefnapeninga fyrir glæpasamtök. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert