Bagger ákærður fyrir grófa líkamsárás

Stein Bagger.
Stein Bagger. Reuters

Stöðugt bætist á syndalistann hjá danska forstjóranum Stein Bagger, sem grunaður er um að hafa svikið milljarða danskra króna út úr fyrirtækinu IT Factory, sem hann stýrði. Nú hefur lögregla í Danmörku einnig ákært Bagger fyrir grófa líkamsárás á fyrrum viðskiptafélaga sinn.

Tveir menn réðust á Allan Vestergaard skammt frá heimili hans í nóvember á síðasta ári. Tveimur dögum síðar fór Bagger til Dubai ásamt konu sinni og þaðan flúði hann til Bandaríkjanna en gaf sig nokkur síðar fram við lögreglu eftir að alþjóðalögreglan hafði lýst eftir honum.

Að sögn danskra fjölmiðla var það Vestergaard sem fyrst fékk grunsemdir um að ekki væri allt með felldu í IT Factory. Hann hafði því samband við Asger Jensby, stjórnarformann fyrirtækisins. Jensby þekkti þá ekkert til Vestergaards, sem þó sagðist vera hluthafi í fyrirtækinu. 

Lögregla hefur enn ekki haft hendur í hári mannanna tveggja, sem réðust á Vestergaard. Hún hafa þó fundið ýmsar vísbendingar og vonar að það leiði hana á sporið. Lögreglunni þykir þó ljóst, að árásin hafi verið gerð að undirlagi Baggers. 

Bagger kom fyrir rétt í Lyngby í morgun og viðurkenndi þar, að hafa svikið  831 milljónir danskra króna út úr  IT Factory, nærri 18 milljarða íslenskra króna. Fram kom einnig, að krafa Danske Bank á þrotabú IT Factory nemur 420 milljónum danskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert