Flokkur Browns saxar á forskot íhaldsmanna

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. Reuters

Verkamannaflokkurinn í Bretlandi hefur saxað verulega á forskot Íhaldsflokksins, samkvæmt nýrri skoðanakönnun breska dagblaðsins Guardian. Ástæðan er einkum sú að kjósendurnir treysta Gordon Brown forsætisráðherra betur í efnahagsmálum en David Cameron, leiðtoga Íhaldsflokksins.

Skoðanakönnunin bendir til þess að fylgi Íhaldsflokksins hafi minnkað um sjö prósentustig á einum mánuði. Munurinn á fylgi flokkanna tveggja hefur minnkað úr 15 prósentustigum í aðeins fimm stig.

Niðurstöður könnunarinnar þykja auka líkurnar á því að boðað verði til þingkosninga í Bretlandi í febrúar eða í vor.

Fylgi Íhaldsflokksins er nú 38%, en var 45% í könnun Guardian í síðasta mánuði. Fylgi Verkamannaflokks hefur aukist úr 30% í 33% og hefur ekki verið meira síðan í apríl. Frjálslyndir demókratar njóta stuðnings 19% kjósenda og aðrir flokkar 10%, ef marka má könnunina.

Könnunin bendir til þess að kjósendur hafi einkum efasemdir um að breskir íhaldsmenn séu færir um að takast á við efnahagsvandann. Þegar þátttakendurnir í könnuninni voru spurðir hver væri líklegastur til að geta rétt efnahaginn við nefndu 35% Brown og 24% Cameron.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert